Ráðningarréttindi

Grundvöllur ráðningarréttinda ríkisstarfsmanna
Ráðningarréttindi ríkisstarfsmanna byggja bæði á lögum og kjarasamningum.
Helstu réttarheimildir eru:

  1. Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. 
  2. Stjórnsýslulög nr. 37/1993
  3. Upplýsingar um fæðingar- og foreldraorlof opinberra starfsmanna og  lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. 
  4. Réttur til launa vegna veikinda og slysa - Sjá 12. kafla kjarasamnings FH - Sjá ennfremur 4. og 5. grein í samkomulagi um breytingar og framlengingu á kjarasamning
  5. Önnur lágmarksákvæði kjarasamninga.

Til hverra taka lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins
Skv. 1. gr. l. nr. 70/1996 taka lögin til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, án tillits til aðildar að stéttarfélagi. Lögin taka þó ekki til:

  • Forseta Íslands, ráðherra og alþingismanna
  • Starfsmanna hlutafélaga og annarra félaga einkaréttarlegs eðlis í eigu ríkisins
  • Starfsmanna stofnana sem eru að einhverju eða öllu leyti í eigu annarra aðila, jafnvel þótt þær séu einvörðungu reknar af ríkisfé

 

Ráðningarfyrirkomulag ríkisstarfsmanna
Starfsmenn ríkisins eru almennt ráðnir með eftirfarandi hætti:

  • Skipun í starf
  • Setningu (tímabundinni skipun í starf)
  • Ótímabundinni ráðningu með gagnkvæmm uppsagnarrétti
  • Tímabundinni ráðningu með gagnkvæmum uppsagnarrétti

Frá og með gildistöku laga nr. 70/1996 eru starfsmenn ríkisins annað tveggja ráðnir sem embættismenn eða almennir starfsmenn. Embættismenn skulu skipaðir tímabundið til 5 ára í senn að undagenginni auglýsingu á stöðu. Til embættismanna teljast þeir sem gegna tilgreindum embættum skv. 22. gr. l. nr. 70/1996. Þó skulu þeir sem nú hafa ótímabundna skipun halda henni.

Starfsmenn aðrir en embættismenn, skulu ráðnir með ótímabundinni ráðningu með 3 mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti.

Heimilt er að ráða starfsmenn tímabundið. Tímabundin ráðning skal þó aldrei standa lengur en 2 ár samfellt (41. gr. l. nr. 70/1996).

Skylda að auglýsa laus störf

  1. Skylt er að auglýsa laus embætti í Lögbirtingarblaðinu með a.m.k. 14 daga fyrirvara skv.7. gr. l. nr. 70/1996.
  2. Skylt er að auglýsa önnur störf í a.m.k. einu dagblaði á landsvísu eða þrisvar lesin auglýsing í auglýsingu við aðalfréttatíma með a.m.k. tveggja vikna umsóknarfresti skv. reglum um auglýsingar, sbr. reglur um auglýsingar á lausum störfum á grundvelli 7. gr. laga nr. 70/1996
  3. Þó er ekki skylt að auglýsa störf sem eru til skemmri tíma en 2 mán eða afleysinga innan við 12 mán, sbr. reglur á grundvelli 7. gr. l. nr. 70/1996.

Ráðningarsamningur
er það samkomulag nefnt sem launamaður og atvinnurekandi gera sín á milli, þegar sá síðarnefndi ræður starfsmann til sín til að starfa fyrir sig undir sinni stjórn og á sína ábyrgð gegn umsömdum kjörum, m.a. launagreiðslum og réttindum. Um þetta réttarsamband gildir m.a:

  • Að kjör skv. ráðningarsamningi mega aldrei vera lakari en samið er um fyrir slíkt starf/störf af stéttarfélögum í kjarasamningum, sbr. 24. gr. l. nr. 94/1986 og 1. gr. l. nr. 55/1980.
  • Að ráðningarsamningur getur bæði verið skriflegur og munnlegur og oft er hluti ráðningasamnings (yfirborgun) munnlegur. Munnlegir ráðningarsamningar gilda til jafns á við skriflega (gagnstætt almennu reglunni um kjarasamninga) ef unnt er að sanna efni þeirra.
  • Að ráðningarsamningar ríkisstarfsmanna skulu vera skriflegir frá og með gildistöku laga nr. 7071996, sbr. 42. gr. þeirra.
  • Að ráðningarsamningar geta bæði verið tímabundnir og ótímabundnir.

Form og efni ráðningarsamninga
Skv. tilskipun ESB 91/533 /ESB skulu ráðningarsamningar vera skriflegir og uppfylla vissa lágmarksupplýsingaskyldu um ráðningarskilmála. Skv. 8. gr. laga nr 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal upplýsa starfsmenn um ráðningarskilmála og skv. 42. gr. skulu ráðningarsamningar ríkisstarfsmanna vera skriflegir. Á grundvelli 42. gr. hafa verið settar reglur um form ráðningarsamninga og skyldu til að upplýsa um ráðningarkjör Skv. þessum reglum skal að lágmarki tilgreina í ráðningarsamningi:

  1. Deili á launamanni og atvinnurekanda.
  2. Vinnustað þar sem vinna fer jafnaðarlega fram.
  3. Eðli starfs. þ.e. starfsheiti og tegund starfs eða lýsing á starfinu.
  4. Vinnutímaskipulag, þ.e. dagvinna, vaktavinna eða annað.
  5. Ráðningarform, þ.e. ótímabundin eða tímabundin ráðning.
  6. Upphafsdag ráðningar.
  7. Starfslokadag ef ráðning er tímabundin.
  8. Lífeyrissjóð.
  9. Stéttarfélag.
  10. Mánaðarlaun m.t.t. taxta og annarra greiðslna.
  11. Greiðslutímabil launa.
  12. Orlofsrétt.
  13. Uppsagnarfrest starfsmanns og atvinnurekanda.
  14. Rétt til launa í barnsburðarleyfi. 
  15. Rétt til launa í veikindum.

Breytingar á kjörum starfsmanns skal staðfesta skriflega.

Áminning og uppsögn
Ef starfsmaður hefur sýnt óstundvísi, vankunnáttu, óvandvirkni eða aðra vanrækslu í starfi, eða ekki sýnt fullnægjandi árangur í starfi, verið ölvaður eða sýnt ósæmilega eða ósamrýmanlega framkomu eða athafnir í eða utan starfs (21. gr.), skal áminna hann skriflega og gefa honum tækifæri til að bæta ráð sitt, áður en til þess getur komið að leysa hann frá starfi eða segja honum upp. Þó er ekki skylt að áminna starfsmann áður en kemur til uppsagnar ef rekja má ástæðuna til fækkunar starfsmanna vegna hagræðingar (44. gr.).

Veita skal starfsmanni tækifæri til að tala máli sínu áður en áminning er veitt "ef það er unnt" (21. gr.).

Ekki er heimilt að segja skipuðum starfsmanni upp. Um lausn úr stöðu gilda sömu ákvæði um skipaða starfsmenn skv. eldri lögum og um embættismenn (bráðabirgðaákvæði og 25. gr.).

Uppsagnarréttur vinnuveitanda gagnvart almennum starfsmönnum er nánar skilgreindur í lögunum (sbr. 21., 26., 38., 43. og 44. gr.) bæði varðandi framgangsmáta og tilefni varðandi tjáningarrétt, áminningu og lögmæt tilefni.

Veita skal starfsmanni tækifæri til að tala máli sínu um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi nema að rekja megi uppsögnina til fækkunar starfsmanna vegna hagræðingar (44. gr.).

Uppsagnarréttur starfsmanna er rýrður á þann veg með lögum nr. 70/1996 að heimild vinnuveitanda til að framlengja uppsagnarfresti er rýmkuð og miðast við einstaka stofnun en ekki heila starfsgrein (sbr. 37. og 46. gr.). Álitaefni er þó hvort þessi breyting standist atvinnufrelsi skv. stjórnarskrá. Stjórnsýslurétturinn takmarkar uppsagnarrétt stjórnvalds þannig að uppsögn er óheimil ef ekki liggja fyrir faglegar eða málefnalegar ástæður.

Réttur til biðlauna
Þeir sem voru í starfi í júní 1996 og áttu rétt til biðlauna skv. eldri lögum eiga sams konar rétt til biðlauna og embættismenn (34. gr., bbákv.) ef staða þeirra er lögð niður, þ.e. réttur til fastra launa í 6 mán ef þeir hafa starfað í skemmri tíma en 15 ár en ella í 12 mánuði. Biðlaunarétturinn skv. 34. gr. er þó lakari en eldri réttur (14. gr. l. 38/1954) að tvennu leyti:

  • Sá sem hafnar sambærilegri stöðu á vegum ríkis eða einhvers annars aðila glatar rétti til biðlauna
  • Biðlaun falla brott ef sá sem þeirra nýtur tekur við einhverju öðru launuðu starfi á biðlaunatímabilinu ef launin í hinu nýja starfi er jöfn eða hærri biðlaununum - en ella skerðast biðlaun hlutfallslega.

Nýir starfsmenn sem hófu starf eftir gildistöku laga nr. 70/1996, þ.e. eftir 1. júlí 1996, eiga ekki rétt til biðlauna.

Fyrirframgreiðsla launa
Aðeins þeir starfsmenn sem voru í starfi í júní 1996 og eru enn í starfi eiga rétt á fyrirframgreiddum launum ef þeir höfðu þann rétt áður (bbákv).  Laun allra nýrra starfsmanna skulu greidd eftirá (10. gr.)

Málsskotsréttur
Málskotsréttur sem er meginregla stjórnsýsluréttarins felur það í sér að sá sem telur stjórnvald beita sig órétti getur skotið máli sínu til æðra stjórnvalds. Þessi almenni málskotsréttur hefur verið gerður að undantekningarreglu þegar kemur að réttarstöðu starfsmanna ríkisins skv. lögum nr. 70/1996. Um þetta vitna m.a. eftirtaldar greinar laganna:  49. gr.,  4. gr., 2. mgr. 13. gr., 20. gr., 5. mgr. 26. gr., 2. mgr. 30. gr. og 2. mgr. 44. gr.

Ýmsar skyldur
Forstjóri hefur lögbundið vald til að breyta vinnutíma starfsmanns, þó háð mörkum laga, ráðningar- og kjarasamninga (17. gr.).

Starfsmanni er skylt að vinna yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni, nema þeim er gegnir lögreglustörfum eða annarri öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur 1/5 af lögmæltum vikulegum vinnutíma.(17. gr. sbr. vinnutímatilskipun ESB).

Fæðingar- og foreldraorlof

Veikindi og slys

Lífeyrislaun og Lífeyrissparnaður

Tryggingar, orlof og fæðispeningar

Atvinnuleysistryggingar (Atvinnuleysisbætur)
Atvinnuleysistryggingar - upplýsingar á vef Vinnumálastofnunar

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is