Tryggingar

Kafli 7 í kjarasamningi.  Reglur um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna nr. 30/1990 og 31/1990.  Reglur um farangurstryggingar starfsmanna á ferðalögum á vegum ríkisins nr. 281/1988

Slysatrygging samkvæmt 7. kafla í kjarasamningi:

Slysatryggingin er í gildi allan sólahringinn, í starfi og utan starfs,  fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku.

Slysatryggingin gildir um alla ríkisstarfsmenn, fastráðna og lausráðna, ef þeir taka laun skv. kjörum hins opinbera og starfið er þeirra aðalstarf.  Þó eru ellilífeyrisþegar í tímavinnu og stundakennarar á tímakaupi ekki slysatryggðir utan starfs (sbr. 6. grein reglna nr. 31/1990).

Starfsmaður telst vera í starfi skv. skilmálum slysatryggingarinnar (nr. 30/1990):

  •           Í vinnutíma
  •           á eðlilegri leið til og frá vinnu
  •           í matar- og kaffitímum á vinnustað
  •           í ferðum milli vinnustaðar og matstaðar í matar- og kaffihléum
  •           í útkalli.

Starfsmaður telst vera utan starfs skv. skilmálum slysatryggingarinnar (nr 31/1990):

  •           Utan vinnutíma allan sólahringinn
  •           á útkallsvakt
  •           í veikindafjarvistum
  •           í orlofi
  •           í námsleyfi og launalausu leyfi í allt að 6 mánuði.

Bótafjárhæðir:

Mismunandi bótafjárhæðir eru eftir því hvort slys verður í starfi eða utan starfs.  U.þ.b. helmingi hærri bætur eru vegna slysa í starfi.

Bæturnar eru vísitölubundnar og miðast við vísitölu framfærslukostnaðar á uppgjörsdegi bóta.   Vísitölubinding takmarkast við 3 ár frá slysadegi.

Ráðstafanir vegna slyss:

  •           Leita læknis strax eftir slysið
  •           tilkynna slys til launaskrifstofu
  •           hafa samband við stéttarfélagið
  •           halda öllum gögnum saman.
  • Ef um er að ræða vinnuslys þá á ætíð að hafa samband við Vinnueftirlit.

Fyrning bótakrafa:

Kröfur vegna slysatryggingarinnar fyrnast fjórum árum eftir að kröfuhafinn fékk vitneskju um rétt sinn til bóta og átti þess kost að leita eftir bótum samkvæmt tryggingunni.  Kröfur fyrnast þó í síðasta lagi 10 árum frá slysadegi.

ATH !

Réttur til örorkubóta og bótafjárhæð örorkubóta er óháð því hvort viðkomandi hefur sömu möguleika og áður til að afla sér tekna.  Ef slys veldur því að starfsmaður er metinn til varanlegrar örorku en hann heldur áfram sínu starfi og hefur sömu möguleika á að afla sér tekna og áður þá á hann  samt sem áður rétt á örorkubótum samkvæmt slysatryggingunni og skilmálum hennar.

Vinnuveitanda ber að bæta starfsmanni þau útgjöld sem starfsmaður kann að verða fyrir vegna slyss á vinnustað eða á beinni leið til og frá vinnu (gr. 7.1.4 í kjarasamningi).

Farangurstrygging:

Gr. 7.2.1 í kjarasamningi

Farangur ríkisstarfsmanna á ferðalögum á vegum vinnuveitanda skal tryggður samkvæmt reglum um farangurstryggingar nr. 281/1988.

Persónulegir munir:

Grein 7.3.1 í kjarasamningi:

Verði starfsmaður sannanlega fyrir tjóni á algengum nauðsynlegum fatnaði og munum við vinnu svo sem úrum, gleraugum o.s.frv. skal það bætt samkvæmt mati.  Náist ekki samkomulag, skal farið samkvæmt mati eins fulltrúa frá hvorum aðila.

Slík tjón verða einungis bætt ef þau verða vegna óhappa á vinnustað.  Ekki skal bæta tjón ef það verður sannanlega vegna gáleysis eða hirðuleysis starfsmanns.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is