Fréttir og jólakveðja frá stjórn Félags háskólakennara

Félag háskólakennara og fjármálaráðuneytið skrifuðu undir skammtímasamning sl. vor sem gildir frá 1. apríl 2023 til loka mars 2024. Frá undirskrift kjarasamningsins hefur stjórn unnið að eftirfylgni þess kjarasamnings og undirbúningi að næstu samningalotu.

Aðalfundur félagsins var haldinn þann 11. maí sl. Baldvin Zarioh deildarstjóri var endurkjörinn formaður til eins árs. Arngrímur Vídalín lektor, Jens Guðmundur Hjörleifsson lektor og Íris Hrönn Guðjónsdóttir innviðastjóri voru kosnir meðstjórnendur til tveggja ára og Haukur Logi Karlsson rannsóknasérfræðingur kosinn sem fulltrúi launþega á styrk til eins árs. Aðrir í stjórn félagsins eru Ármann Höskuldsson rannsóknaprófessor, Íris Davíðsdóttir rekstrarstjóri og Jóna Margrét Ólafsdóttir lektor, öll kosin til tveggja ára árið 2022. Framkvæmdastjóri félagsins er Helga Birna Ingimundardóttir.

Áfangasamkomulag vegna jöfnunar launa á milli markaða Samhliða kjarasamningsvinnunni var þann 23. mars sl. skrifað undir áfangasamkomulag vegna sk. 7. greinar um jöfnunar launa milli markaða en það samkomulag var gert í tengslum við breytingar á lífeyrissjóðakerfinu árið 2016. Samkomulagið þann 23. mars var á milli heildarsamtaka (BHM, BSRB og KÍ) við annarsvegar Fjármála- og efnahagsráðherra og hinsvegar við Samband íslenskra sveitafélaga. Í samkomulaginu var ákveðið að vinna að leiðréttingu launa tiltekinna hópa innan tiltekinna stofnana hjá ríki og sveitarfélögum. Hjá Félagi háskólakennara féllu aðjunktar, lektorar og dósentar undir þetta samkomulag. Skrifað var undir útfærslu samkomulagsins þann 13. desember sl. en það felur í sér eftirfarandi hækkanir hjá félagsfólki Félags háskólakennara:

  • Starfsaldurshækkanir hjá aðjunktum II eftir eitt ár og þrjú ár í starfi.
  • Lágmarksröðun aðjunkta I, lektora og dósenta fer í launaflokk L09 (var L08).
  • Fyrsta launaþrep kemur fyrir 20 stig (var áður 50 stig).

Vinnumatssjóður nýdoktora Greiðslur til nýdoktora vegna vinnumats voru skertar í samræmi við 2. gr. reglna sjóðsins en ákvæði þeirrar greinar er í ósamræmi við 5. grein sömu reglna. Félagið vakti athygli á þessu ósamræmi við stjórn Háskólans og nú í desember ákvað skólinn að falla frá þessum skerðingum og verður því greitt fyrir rannsóknastig nýdoktora á sama verðgildi og rannsóknastigi annara hópa við skólann.

Sáttmálasjóður Fyrir háskólaráðsfundi þann 7. desember sl. lá fyrir tillaga um að fjárveitingum í Sáttmálasjóð yrði hætt frá næstu áramótum og reglur um úthlutun styrkja úr sjóðnum felldar úr gildi. Fulltrúar háskólasamfélagsins, Hólmfríður Garðarsdóttir og Silja Bára R. Ómarsdóttir , lögðu fram bókun um að sú tillaga yrði dregin til baka. Endanleg ákvörðun um framtíð Sáttmálasjóðs hefur ekki verið tekin. Stjórn félagsins er mótfallinn niðurlagningu sjóðsins og hvetur háskólayfirvöld til að endurskoða málið.

Endurskoðun á heildartexta stofnanasamnings Í síðustu kjarasamningsviðræðum tókust einnig samningar um tilteknar breytingar í stofnanasamningi á milli félagsins og Háskólans. Í kjölfarið hefur verið unnið að endurskoðun á heildartexta stofnanasamningsins og breytingum á stofnanasamningi í samræmi við áfangasamkomulag vegna jöfnunar launa á milli markaða.

Flutningur skrifstofu Félags háskólakennara Félag háskólakennara hefur rekið skrifstofu sína á Hótel Sögu en með kaupum Háskóla Íslands á húseigninni með tilheyrandi framkvæmdum var fljótlega ljóst að félagið gæti ekki lengur rekið skrifstofu þar. Í haust tók félagið á tímabundna leigu skrifstofu í Grósku, meðan leitað var framtíðarlausna á húsnæðismálum. Síðla hausts gafst Félagi háskólakennara kostur á að taka á leigu húsnæði á 2. hæð Borgartúns 27 með 10 öðrum aðildarfélögum BHM. Félagið er nú með skrifstofu þar þó sú lausn sé ekki til langframa. Sömu félög vinna nú að því að finna framtíðarhúsnæði og líklegt er að 3. hæð sömu byggingar verði fyrir valinu. Sem fyrr er þó alltaf hægt að óska eftir fundi með framkvæmdastjóra félagsins eða bera upp erindi símleiðis og/eða með tölvupósti.

Stytting vinnuvikunnar Í Kjarasamningi sem gilti frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023 var meðal annars fjallað um styttingu vinnuvikunnar og útfærslu á henni. Þar var kveðið á um að leggja skyldi mat á áhrif breytinganna og hvort núverandi framsetning á ákvæðum vinnutíma í kjarasamningi falli best að framtíðarskipulagi og starfsumhverfi. Í nóvember sl. kynnti Samráðsnefnd fulltrúum félagsins niðurstöður könnunar þar sem m.a. var spurt um viðhorf til útfærslu skólans á styttingu vinnuvikunnar. Þar kemur fram að 2/3 félagsfólks er sátt við þá útfærslu sem valin var. Þá kemur einnig fram að stytting vinnuvikunnar hefur haft jákvæð áhrif á starfsfólk í öllum þáttum sem spurt var um. m.a. starfsánægju og samþættingu vinnu og einkalífs. Stytting vinnuvikunnar fyrir akademískt starfsfólk hefur enn ekki verið útfærð en í verkáætlun með kjarasamningi frá apríl 2023 er skýrt kveðið á um að í þetta verði ráðist í næstu kjarasamningum. Hver sú útfærsla verður á eftir að koma í ljós, en það verður krefjandi verkefni þar sem forsendur fyrir útfærslum á styttingu vinnuvikunnar hjá ríkinu eru að þær valdi ekki auknum launakostnaði.

Sjóður um rannsóknamisseri sérfræðinga á stofnunum tengdum Háskóla Íslands. Í tæpa þrjá áratugi hefur verið starfræktur sjóður til að kosta rannsóknamisseri sérfræðinga á stofnunum tengdum Háskóla Íslands, þ.e. Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, Raunvísindastofnun, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Landsbókasafni Íslands- Háskólabókasafni. Mennta- og menningarráðuneytið stóð straum af kostnaði vegna sjóðsins en nú er sú staða komin upp að ofangreindar stofnanir tilheyra ekki lengur sama ráðuneyti. Þeim skilaboðum hefur verið komið á framfæri að ætlast sé til að stofnanir standi straum af þessum kostnaði með föstum fjárveitingum. Félagið hefur fundað með hlutaðeigandi stofnunum og Samráðsnefnd háskólans en lausn hefur  ekki fundist á málinu.

Undirbúningur kjaraviðræðna Stjórn og framkvæmdastjóri Félags háskólakennara hefur unnið markvisst að kröfugerð og undirbúningi næstu kjaraviðræðna. Stjórn hefur haft tvo lengri vinnufundi og haldnir hafa verið fundir með trúnaðarmönnum. Þá lagði félagið fram skoðanakönnun fyrir bæði akademískt starfsfólk og annað starfsfólk nú á haustmánuðum í samstarfi við Félag prófessora og Félag háskólakennara á Akureyri. Unnið er að úrvinnslu þeirra kannana en upplýsingar úr þeim verða birtar á heimasíðu félagsins eins fljótt og auðið er.

Ljóst er að næsta kjarasamningslota verður strembin m.a. vegna utanaðkomandi þátta en stjórn félagsins er einhuga um að ná fram betri kjörum fyrir félagsfólk.  Öll gögn sem félagið býr yfir sýna að félagsfólk hefur dregist aftur úr í launum og óánægja með launakjör hefur aukist mikið á undanförnum árum. Ef fram fer sem horfir mun Háskólinn ekki vera samkeppnishæfur um hæft starfsfólk. Jafnframt hefur verið barist fyrir því að menntun félagsfólks sé metin til launa og þá sérstaklega horft til þess hvernig hægt sé að auka vægi doktorsprófs í launsetningu. Félagið hefur átt gott samstarf við Félag Háskólakennara á Akureyri (FHA) og Félag prófessora við ríkisháskóla (FPR) í undirbúningi viðræðna og verður því samstarfi haldið áfram.

Gleðileg jól.    Fyrir hönd stjórnar Félags háskólakennara, Baldvin Zarioh, formaður.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is