Ályktun frá stjórnum Félags háskólakennara og Félagi prófessora
Ályktun frá Félagi prófessora við ríkisháskóla og Félagi háskólakennara um fjármögnum háskólastigsins á Íslandi
Stjórnir Félags prófessora við ríkisháskóla og Félags háskólakennara lýsa yfir stuðningi við bókun háskólaráðs Háskóla Íslands frá 12. janúar sl. sem fylgir hér að neðan. Það er ljóst að fjárlög ársins 2023 munu leiða til þess að við sem samfélag fjarlægjumst fremur en nálgumst þá framtíðarsýn sem birtist í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að fjármögnun háskóla hér á landi verði sambærileg og á hinum Norðurlöndunum. Ef við viljum efla samkeppnishæfni Íslands, hvort sem það er á sviði hefðbundnari atvinnugreina og þjónustu eða nýrri atvinnugreina, þá gerist það helst með menntun, þekkingarsköpun og áframhaldandi þróun í átt til jafnréttis. Það er engin önnur leið til ef við viljum gera Ísland að eftirsóknarverðum stað til að búa á til framtíðar og í þekkingarsköpun hvers samfélags vega rannsóknir á háskólastigi þyngst.
Ísland er í beinni samkeppni við hin Norðurlöndin og við fleiri lönd innan OECD um vel menntað starfsfólk og lífskjör. Nú að nýloknum heimsfaraldri blasir það skýrar við en nokkru sinni fyrr að rannsóknir eru eina leið mannkyns til að takast á við stærstu verkefni nútímans eins og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni, farsóttir, loftslagsvá, til að varðveita þjónustu vistkerfa, auka sjálfbæra nýtingu auðlinda, sjálfbærni atvinnuvega, draga úr heilsubresti, til að svara betur vaxandi þörf fyrir heilbrigðis- og félagsþjónustu, og til að greina og skilja áhrif mannfjöldaþróunar í samfélaginu á getu okkar til að takast á við verkefni framtíðar.
Bókun háskólaráðs HÍ
„Á fundi háskólaráðs 12. janúar 2023 voru samþykktar tillögur fjármálanefndar ráðsins um skiptingu fjárveitinga árið 2023. Vegna niðurskurðar og erfiðs rekstrarumhverfis húsnæðismála er ljóst að Háskóli Íslands mun ekki að óbreyttu ná að skila hallalausum rekstraráætlunum árið 2023 heldur mun þurfa að nýta sér uppsafnaðan afgang af rekstri skólans.
Þessi niðurstaða er mikið áhyggjuefni og ekki síst vegna þess að fjárveitingar til Háskóla Íslands endurspegla ekki þá sýn stjórnvalda sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar, að stefna að sambærilegri fjármögnun háskóla á Íslandi og þekkist á hinum Norðurlöndunum, sbr. áætlanir Vísinda- og tækniráðs.
Háskólaráð hvetur stjórnvöld eindregið að hraða endurskoðun á reiknilíkani háskóla og vinna að þeirri framtíðarsýn sem er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um fjármögnun háskólastigsins á Íslandi. Háskóli Íslands er sem fyrr reiðubúinn til samstarfs um það.“
Formenn félagana veita nánari upplýsingar:
Formaður FPR, Pétur Henry Petersen. Gsm: 845-5346. Netfang: phenry@hi.is
Formaður FH, Baldvin M. Zarioh. Gsm: 698-4823. Netfang: bmz@hi.is