Ályktun stjórnar Félags háskólakennara um samþykktan kjarasamning 2024-2028
Þann 20. september sl. var nýr kjarasamningur Félags háskólakennara við ríkið samþykktur með 62,8% greiddra atkvæða. Framundan eru áframhaldandi viðræður við stjórnendur Háskóla Íslands á grundvelli bókana í stofnanasamningi og eru þar undir mörg og viðamikil mál sem leysa þarf á samningstímanum.
Að lokinni atkvæðagreiðslu vill stjórn Félags háskólakennara benda á þá staðreynd að nær fjórir af hverjum tíu sem greiddu atkvæði kusu gegn samningnum. Það er til marks um mikla og vaxandi óánægju með launa- og starfskjör félagsfólks. Þá er ljóst að álag á starfsfólk er komið fram úr öllu hófi, samanber erindi og umræður á sameiginlegum málþingum Félags háskólakennara, Félags prófessora við ríkisháskóla og Félags háskólakennara á Akureyri sem haldin voru í vor. Viðvarandi fjársvelti Háskóla Íslands kemur niður á gæðum kennslu, rannsóknum og þjónustu við nemendur og hefur í för með sér vaxandi spekileka innan háskólasamfélagsins.
Félag háskólakennara skorar á stjórnvöld að standa við gefið loforð frá árinu 2011 um að fjárfesting í háskólamenntun skuli ná meðaltali OECD ríkjanna. Hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur svikið það loforð. Það er ekki nóg að flytja innblásnar ræður um gildi menntunar á tyllidögum heldur er nauðsynlegt að búa þannig að menntastofnunum að þær standi undir alþjóðlegum viðmiðum.