Staða kjaramála
Eins og fram kom í tölvupósti til félagsmanna þann 6. mars sl. ákváðu BHM, BSRB og KÍ í febrúar að ganga saman til kjaraviðræðna um tiltekin mál og nýta þannig samtakamátt sinn til að knýja fram kjarabætur. Síðastliðinn föstudag þann 31. mars náði BHM, fyrir hönd aðildarfélaga sinna, rammasamningi við ríki og borg. Samkomulagið er á sambærilegum nótum og samningar sem þegar hafa verið gerðir á almennum vinnumarkaði. Það felur í sér prósentuhækkanir með ákveðnu lágmarki og hámarki í krónutölum, auk lagfæringa á launatöflum þar sem það á við. Samkomulagið er einungis til tólf mánaða í stað fimmtán mánaða á almenna markaðnum og er það gert til þess að verja kaupmátt félagsfólks. Í samkomulaginu er einnig kveðið á um verkáætlun sem vinna á að á samningstímanum s.s. um betri vinnutíma og endurskoðun á veikindakafla kjarasamnings.
Frá því að rammasamkomulagið var undirritað hefur samninganefnd Félags háskólakennara átt fundi með samninganefnd ríkisins og fulltrúum Háskóla Íslands til að ljúka við endanlegan kjarasamning. Þau samtöl hafa gengið vel og stefnt er að undirritun kjarasamnings á allra næstu dögum. Samningurinn verður svo kynntur strax eftir páska og í framhaldi af kynningu fer samningurinn í rafræna atkvæðagreiðslu hjá félagsfólki.