Upplýsingar fyrir félagsmenn vegna COVID-19
Fordæmalausar aðstæður hafa skapast í íslensku samfélagi vegna COVID-19. Útbreiðsla sjúkdómsins hefur verið hröð á heimsvísu og hafa heilbrigðisyfirvöld beint þeim fyrirmælum til fólks sem hefur mögulega komist í snertingu við veiruna eða smitaða einstaklinga að vera í sóttkví í 14 daga. Þetta er gert til þess að hindra frekari útbreiðslu hér á landi. Vaknað hafa ýmsar spurningar um réttarstöðu þessara einstaklinga.
Á þessari síðu er að finna efni sem félagsmenn aðildarfélaga BHM geta nýtt sér þegar spurningar vakna um réttindamál á vinnumarkaði við þessar sérstöku aðstæður. Fjarvistir starfsmanna geta verið af mismunandi ástæðum, til dæmis vegna þess að þeir eru í einangrun eða sóttkví vegna eigin smits eða smits annarra fjölskyldumeðlima. Þá geta fjarvistir verið vegna beiðni vinnuveitanda um að starfsmaður haldi sig fjarri vinnustað og/eða vinni heiman frá sér, vegna raskana á almenningssamgöngum eða ótta starfsmanna við að smitast ef þeir mæta til vinnu.
Félagsmenn aðildarfélaga BHM sinna fjölbreyttum störfum bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Ráðningarform félagsmanna og ákvæði viðkomandi kjarasamnings eru mismunandi og því reynt að haga upplýsingum og svörum eftir því.