Fjölmennt á fundi með framboðum til Alþingis um háskólamál þann 25. nóvember
Fjölmennt var á fundi með framboðum til Alþingis um málefni háskólanna þann 25. nóvember síðastliðinn. Um 170 manns sóttu fundinn en um helmingur af þeim tók þátt í streymi. Margt fróðlegt kom fram á fundinum, umræður voru góðar og athyglisvert að hlusta á mismunandi sjónarmið um þetta mikilvæga málefni.
Félag prófessora við ríkisháskóla, Félag háskólakennara, Félag háskólakennara á Akureyri, Landssamtök íslenskra stúdenta og FEDON - Félag doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands boðuðu til fundarins með fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram á landsvísu. Allir flokkar staðfestu komu sína og mættu eftirtaldir áframbjóðendur á fundinn:
- Flokkur fólksins: Björn Þorláksson (boðaði forföll)
- Framsóknarflokkurinn: Lilja Dögg Alfreðsdóttir (kl. 16-17) - Vala Garðarsdóttir (kl. 17-18)
- Lýðræðisflokkurinn: Arnar Þór Jónsson
- Miðflokkurinn: Eiríkur Svavarsson
- Píratar: Björn Leví Gunnarsson
- Samfylkingin: Dagur B. Eggertsson
- Sjálfstæðisflokkurinn: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
- Sósíalistaflokkurinn: Guðmundur Auðunsson
- Vinstri græn - VG: Guðmundur Ingi Guðbrandsson
- Viðreisn: Hanna Katrín Friðriksson
Á málþinginu var rædd sú alvarlega staða sem opinberir háskólar á Íslandi standa frammi fyrir, sem meðal annars tengist undirfjármögnun þeirra, síauknu álagi á starfsfólk háskólanna og raunverulegu jafnrétti til náms á Íslandi. Þar má nefna að kaupmáttur háskólastarfsfólks hefur staðið í stað síðan 2016 og háa tíðni starfsfólks með alvarleg kulnunareinkenni. Þrátt fyrir áratuga loforð um annað er Ísland enn langt undir meðaltali Norðurlandanna þegar kemur að fjármögnun háskólakerfisins og þær breytingar sem gerðar voru á námslánum í gegnum Menntasjóð virðast ekki vera að virka fyrir stóran hluta nemenda.
Málþingið hófst með stuttri kynningu Sigrúnar Ólafsdóttur formanns FPR á aðstæðum í opinberu háskólunum. Í kjölfarið fékk fulltrúi hvers flokks fimm mínútur til að svara spurningum sem þeim voru sendar nokkrum dögum fyrir fundinn. Þá fengu þeir tækifæri til að ræða stefnu sinna flokka um málefni háskólanna á Íslandi. Að því loknu var boðið upp á almennar umræður og spurningar úr sal.
Fundurinn var haldinn kl. 16.00- 18.00 í Öskju, húsnæði Háskóla Íslands við Sturlugötu og í streymi.
Fundarstjóri var Hulda Þórisdóttir, prófessor við HÍ.
Framboðin fengu þrjár spurningar fyrir fundinn:
- Árið 2022 voru tveir milljarðar teknir úr rekstrarfé háskólanna og þeim veitt í Samstarfssjóð háskólanna. Markmið sjóðsins var að „auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni háskólanna“. Hefur því markmiði verið náð og hefur ávinningur hlotist af því að veita heldur fé í samkeppnissjóð en beint í rekstur háskólanna?
- Margar undanfarnar ríkisstjórnir hafa haft það markmið að fjármagn til háskólastigsins nái meðaltali OECD-landanna og til lengri tíma meðaltali Norðurlandanna. Er það mikilvægt markmið? Ef svo, hvernig getur Ísland náð því markmiði?
- Skapar háskólamenntun verðmæti fyrir samfélög? Ef svo, hvernig á að meta háskólamenntun til tekna og hvaða ástæður liggja að baki því að dregið hefur úr kaupmætti launa háskólamenntaðra upp að því marki að sumt ungt fólk telur háskólamenntun ekki lengur skynsamlega fjárfestingu?