Fréttir af aðalfundi 2021
Aðalfundur Félags háskólakennara var haldinn 20. maí sl.
Á fundinum var Baldvin Zarioh deildarstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviði, kosinn formaður til eins árs.
Meðstjórnendur til tveggja ára voru kosin:
- Berglind Eva Benediktsdóttir, dósent, Lyfjafræðideild.
- Guðmundur Ingi Guðmundsson, sérfræðingur, Landsbókasafni – háskólabóksafni.
- Jens G. Hjörleifsson, lektor, Raunvísindadeild.
Tillaga stjórnar um óbreytt félagsgjald og hlutdeild þess í kjaradeilusjóði var samþykkt.
Stjórn félagsins lagði fram lagabreytingartillögur á aðalfundinum sem voru samþykktar. Þær fela m.a. í sér að félagsmenn sem ráðnir eru tímabundinni ráðningu á grundvelli rannsóknastyrkja fái fulla aðild að félaginu þ.e. kjörgengi og atkvæðisrétt. Texti sem var í lögunum um aukaaðild var þar með felldur niður. Breytingarnar fela það einnig í sér að doktorsnemar og nýdoktorar fá einn fulltrúa í stjórn félagsins sem kosinn er til eins árs í senn.
Vegna þessara breytinga á lögum félagsins var lögð til tillaga til bráðabirgða sem var samþykkt og sem orðast svo:
„Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. 2. mgr. skal stjórn að loknum aðalfundi Félags háskólakennara á árinu 2021 standa fyrir kosningu um fulltrúa styrkþega í stjórn Félags háskólakennara sem mun sitja fram að aðalfundi 2022, án aðkomu kjörnefndar.“
Á fundinum var borin upp sú tillaga að haldinn verði félagsfundur þar sem fulltrúi hópsins verði kosinn í stað þess að boða til annars aðalfundar, til þess að flýta ferlinu. Tillagan var samþykkt.
Stjórn Félags háskólakennara boðar að þessu tilefni til félagsfundar þriðjudaginn 1. júní nk. kl.16.
Fundurinn verður haldinn í salnum Esja II á Hótel Sögu (gengið er inn um aðalinngang upp á 2. hæð).