Kjarasamningsbundin réttindi

Allar upplýsingar um ferðakostnað, akstursgjald og dagpeninga, forsendur fyrir útreikningum á þeim ásamt umburðarbréfi ferðakostnaðarnefndar má finna á upplýsingavef fjármálaráðuneytisins.

Hér má finna grunnupplýsingar um réttindi foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs en ítarlegri upplýsingar er að finna á vef Fæðingarorlofssjóðs.

Réttindi hjá Félagi háskólakennara í fæðingarorlofi:

Í umsókn um fæðingarorlofsgreiðslur er hægt að óska eftir því að greitt sé til Félags háskólakennara og þar með tryggt að áunnin réttindi viðkomandi hjá stéttarfélagi haldist óbreytt meðan á fæðingarorlofi standi, s.s. réttur til úthlutunar úr styrktarsjóði, orlofssjóði, starfsmenntunarsjóði og ef við á. Þá á viðkomandi áfram rétt á annarri þjónustu.

Frávik frá almennum reglum:

Á vef Fæðingarorlofssjóðs er að finna frávik sem geta komið upp á meðgöngu eða fæðingu og kalla á breytingar á töku fæðingarorlofs.

Réttindi til fæðingarorlofs skapast við:

  • Fæðingu barns
  • Ættleiðingu barns eða töku barns í varanlegt fóstur
  • Fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu
  • Andavanafæðingu eftir 22ja vikna meðgöngu

Lengd fæðingarorlofs:

Samanlagt fæðingarorlof er níu mánuðir. Móðir á rétt á þremur mánuðum, faðir á einnig rétt á þremur mánuðum og sameiginlegur réttur er þrír mánuðir.

Lenging á fæðingarorlofi:

Þunguð kona getur átt rétt á allt að tveggja mánaða lengingu á fæðingarorlofi. Þessi lenging getur komið til þegar móðir er veik á meðgöngu, hefur fullnýtt veikindarétt sinn hjá vinnuveitanda og meira en mánuður er í áætlaðan fæðingardag.

Með umsókn um lengingu fæðingarorlofs þarf að fylgja:

  • læknisvottorð sérfræðilæknis sem rökstyðja skal þörf fyrir framlengingu
  • staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar, eftir því sem við á, þar sem fram kemur hvenær umsækjandi hætti störfum, hvenær launagreiðslur féllu niður og hvenær veikindaréttur var fullnýttur.

Upphæðir fæðingarorlofs:

Mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru 80% af meðaltali heildarlauna yfir tólf mánaða tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingu barns. Greiðsla er þó aldrei hærri en 370 þús kr.

Sumarorlof eftir fæðingarorlof. Desember- og orlofsuppbót:

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, s.s. orlofstöku og lengingar á orlofi samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Opinberir starfsmenn ávinna sér bæði orlofsrétt og rétt til orlofslauna í fæðingarorlofi.

  • Starfsmaður í fæðingarorlofi á rétt til greiðslu orlofs- og desemberuppbótar.

Uppsögn í fæðingarorlofi:

Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum sem tilkynnt hefur um fæðingarorlof eða er í slíku orlofi nema til þess liggi skriflegar rökstuddar ástæður sem mega með engum hætti tengjast töku fæðingarorlofs eða fyrirhuguðu fæðingarorlofi.
Dæmi um slíka ástæðu getur meðal annars verið ef starf viðkomandi er lagt niður meðan á fæðingarorlofi stendur.

Foreldraorlof, hvað er það og hverjir eiga rétt á því?

Foreldrar sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði eiga rétt á fjögurra mánaða launalausu foreldraorlofi.
Rétturinn fellur niður við 8 ára aldur barns. Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur.
Foreldraorlofsrétturinn skiptist þannig að hvort foreldri um sig á sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til fjögurra mánaða orlofs til að annast barn sitt (2 x fjóra mánuði fyrir hvert barn).
Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs haldast óbreytt til loka orlofsins ásamt þeim breytingum sem kunna að hafa orðið á áunnum réttindum á grundvelli laga eða kjarasamninga.

Félags háskólakennara vill minna á reglu nr. 18 Fæðingarstyrkur, í Styrktarsjóði BHM, hún er svona:

  • Báðir foreldrar eiga rétt séu þeir aðilar að sjóðnum og uppfylla skilyrði um sjóðsaðild.  Upphæð styrks miðast við starfshlutfall. Sækja þarf um innan árs frá fæðingu barns.  Fæðingarstyrkur er veittur til foreldris gegn framvísun fæðingarvottorðs og afirti af nýjum launaseðli (með réttu starfshlutfalli). Fullur styrkur er kr. 200.000 til foreldris vegna hvers barns en lækkar í samræmi við stafshlutfall.
  • Hálfur styrkur er greiddur vegna fósturláts eftir 18 vikur og andvana fæðingar.

Lög og reglur um fæðingarorlof:

Lög nr 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

Reglugerð um ráðstafanir til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Starfsmenn sem ekki hafa aðgang að matstofu eiga rétt á að fá greitt fæðisfé sbr. grein 3.4.2 í kjarasamningi enda séu þá uppfyllt neðantalin skilyrði:

1. Vinnuskylda starfsmanns sé minnst sem svarar (50%) hálfri stöðu á viku.
2. Starfsmaður hafi vinnuskyldu á föstum vinnustað frá kl. 11:00 - 14:00 að frádregnu matarhléi.
3. Matarhlé sé aðeins 1/2 klst.

Matarmiðar eða fæðisfé:

Hægt er að velja milli þess að fá fæðisfé eða fá aðgang að kaupum á matarmiðum sem nota má í mötuneyti Háskólans. Starfsmaður hefur rétt á að fá fæðisfé 9.504 kr á mánuði (júlí 2023) eða fá Hámumiða ef að vinnuskylda hans sé minnst sem svarar 50% stöðu. Gengið er frá því um leið og gerður er ráðningasamningur. Starfsfólk getur keypt Hámumiða á þjónustuborðinu á Háskólatorgi og er fjöldi miða í samræmi við virka daga á árinu.

Nánari upplýsingar um fæðisfé veita starfsmenn launadeildar, sími 525 4390.

Vinnuvika dagvinnumanna í fullu starfi er 40 stundir eða 8 stundir á dag, mánudaga til föstudaga.

  • Í meðaltalsári eru 249,7 vinnudagar (frídagar frádregnir).
  • Í meðalstalsári eru 1.997,5 vinnuskyldustundir (8*249,7).
  • Í meðaltalsmánuði eru 166,5 vinnuskyldustundir eða 166 klst. og 27 mín. (1.997,5 / 12).

Vinnuskylda að frátölu orlofi er sem hér segir:

Aldur Vinnuskyldu stundir Orlofsstundir Vinnuskyldu stundir samtals Vinnudagar á ári
<30 ára 1.997,5 192 1.805,5 mín. 225,7
30 - 38 ára 1.997,5 216 1.781,3 mín. 222,7
>38 ára 1.997,5 240 1.757,3 mín. 219,7

Að frádregnum kaffitímum (ekki skilgreindir í vinnutíma) er vinnuskylda akademískra starfsmanna eftirfarandi:

Aldur Vinnuskyldu stundir Vinnuskylda Kaffitímar 
<30 ára 1.805,5 1.650 155,4
30 - 38 ára 1.781,3 1.626 155,4
>38 ára 1.757,3 1.602 155,4

Áunnið orlof eða orlofsréttur
  Stundir á ári Stundir á mánuði Vinnudagar á ári
100% starf  240 20 30

Orlof skal vera 30 dagar miðað við fullt starf. Ávinnsla orlofs skal vera hlutfallsleg miðað við starfshlutfall og starfstíma starfsmanns.

  • Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl.  
  • Sumarorlofstími er frá 1. maí til 15. september.
  • Starfsmaður á rétt á að fá samfellt 15 daga orlof á sumarorlofstímabilinu, verði því við komið vegna starfa stofnunarinnar.

Yfirmaður ákveður í samráði við strafsmenn hvenær orlof skuli veitt. Honum er skylt að verða við óskum starfsmanna um hvenær orlof skuli veitt enda verði því við komið venga starfsemi stofnunarinnar. Ákvörðun um sumarorlof skal liggja fyrir 31. mars og tilkynnt starfsmanni með sannarnlegum hætti, sem sem í tímaskráningakerfi stofnunar, nema sérstakar aðstæður hamli.

  • Sé orlof eða hluti orlofs tekið utan sumarorlofstímabils, að skriflegri beiðni yfirmanns, skal sá hluti lengjast um 25%.
  • Hafi starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dagar, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.
  • Veikist starfsmaður í orlofi, telst sá tími sem veikindum nemur ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann geti ekki notið orlofs.
  • Tilkynna skal yfirmanni án tafar með sannanlegum hætti ef um veikindi eða slys í orlofi er að ræða.

Slysatrygging samkvæmt 7. kafla í kjarasamningi:

Kafli 7 í kjarasamningi. Reglur um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna nr. 30/1990 og 31/1990.  Reglur um farangurstryggingar starfsmanna á ferðalögum á vegum ríkisins nr. 281/1988

Slysatryggingin er í gildi allan sólahringinn, í starfi og utan starfs,f yrir dauða eða vegna varanlegrar örorku.

Slysatryggingin gildir um alla ríkisstarfsmenn, fastráðna og lausráðna, ef þeir taka laun skv. kjörum hins opinbera og starfið er þeirra aðalstarf. Þó eru ellilífeyrisþegar í tímavinnu og stundakennarar á tímakaupi ekki slysatryggðir utan starfs (sbr. 6. grein reglna nr. 31/1990).

Starfsmaður telst vera í starfi skv. skilmálum slysatryggingarinnar (nr. 30/1990):

  • Í vinnutíma
  • Á eðlilegri leið til og frá vinnu
  • Í matar- og kaffitímum á vinnustað
  • Í ferðum milli vinnustaðar og matstaðar í matar- og kaffihléum
  • Í útkalli

Starfsmaður telst vera utan starfs skv. skilmálum slysatryggingarinnar (nr. 31/1990):

  • Utan vinnutíma allan sólahringinn
  • Á útkallsvakt
  • Í veikindafjarvistum
  • Í orlofi
  • Í námsleyfi og launalausu leyfi í allt að 6 mánuði

Bótafjárhæðir:

Mismunandi bótafjárhæðir eru eftir því hvort slys verður í starfi eða utan starfs. U.þ.b. helmingi hærri bætur eru vegna slysa í starfi.

Bæturnar eru vísitölubundnar og miðast við vísitölu framfærslukostnaðar á uppgjörsdegi bóta. Vísitölubinding takmarkast við 3 ár frá slysadegi.

Ráðstafanir vegna slyss:

  • Leita læknis strax eftir slysið
  • Tilkynna slys til launaskrifstofu
  • Hafa samband við stéttarfélagið
  • Halda öllum gögnum saman

Ef um er að ræða vinnuslys þá á ætíð að hafa samband við Vinnueftirlit.

Fyrning bótakrafa:

Kröfur vegna slysatryggingarinnar fyrnast fjórum árum eftir að kröfuhafinn fékk vitneskju um rétt sinn til bóta og átti þess kost að leita eftir bótum samkvæmt tryggingunni. Kröfur fyrnast þó í síðasta lagi 10 árum frá slysadegi.

ATHUGIÐ!

Réttur til örorkubóta og bótafjárhæð örorkubóta er óháð því hvort viðkomandi hefur sömu möguleika og áður til að afla sér tekna.  

Ef slys veldur því að starfsmaður er metinn til varanlegrar örorku en hann heldur áfram sínu starfi og hefur sömu möguleika á að afla sér tekna og áður þá á hann samt sem áður rétt á örorkubótum samkvæmt slysatryggingunni og skilmálum hennar.

Vinnuveitanda ber að bæta starfsmanni þau útgjöld sem starfsmaður kann að verða fyrir vegna slyss á vinnustað eða á beinni leið til og frá vinnu (gr. 7.1.4 í kjarasamningi).

Farangurstrygging:

Gr. 7.2.1 í kjarasamningi:

Farangur ríkisstarfsmanna á ferðalögum á vegum vinnuveitanda skal tryggður samkvæmt reglum um farangurstryggingar nr. 281/1988.

Persónulegir munir:

Grein 7.3.1 í kjarasamningi:

Verði starfsmaður sannanlega fyrir tjóni á algengum nauðsynlegum fatnaði og munum við vinnu svo sem úrum, gleraugum o.s.frv. skal það bætt samkvæmt mati. Náist ekki samkomulag, skal farið samkvæmt mati eins fulltrúa frá hvorum aðila.

Slík tjón verða einungis bætt ef þau verða vegna óhappa á vinnustað. Ekki skal bæta tjón ef það verður sannanlega vegna gáleysis eða hirðuleysis starfsmanns.

Uppsagnarfrestur ótímabundis ráðningarsamnings eru þrír mánuðir. Uppsögn miðast við mánaðamót.

Uppsagnarfrestur eftir tíu ára samfellt starf, lengdur uppsagnarfrestur:

Sé starfsmanni sagt upp, eftir a.m.k.10 ára samfellt starf hjá sömu stofnun, er uppsagnarfrestur sem hér segir:

  • 4 mánuðir ef starfsmaður er orðinn 55 ára
  • 5 mánuðir ef starfsmaður er orðinn 60 ára
  • 6 mánuðir þegar hann er orðinn 63 ára

Starfsmaður getur hins vegar sagt upp starfi sínu með þriggja mánaða fyrirvara.

Uppsögn á reynsutíma:

Á reynslutíma er uppsagnarfrestur yfirleitt einn mánuður.

Uppsögn tímabundinnar ráðningar:

Uppsögn tímabundinnar ráðningar er einn mánuður, einnig miðað við mánaðamót, enda hafi það verið tilgreint í ráðningarsamningi.

Meira varðandi uppsagnir, samantekt frá BHM.

Við mat á ávinnslurétti starfsmanns skal auk þjónustualdurs hjá viðkomandi launagreiðanda einnig telja þjónustualdur hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostnaðar eru að meirihluta til af almannafé.

Starfstími: Fjöldi daga:
0 - 3 mánuðir í starfi 14 dagar
3 - 6 mánuðir 35 dagar
Eftir 6 mánuði í starfi 119 dagar
Eftir 1 ár í starfi 133 dagar
Eftir 7 ár í starfi 175 dagar

Við framangreindan rétt bætist auk þess réttur til mánaðarlauna í 13 vikur eða 91 dag ef óvinnufærni stafar af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi.

Starfstími: Fjöldi daga:
Eftir 12 ár í starfi 273 dagar
Eftir 18 ár í starfi 360 dagar
  • Laun greiðast þó ekki lengur en ráðningu er ætlað að standa.

Greiðslur:

Í fyrstu viku veikinda- og slysaforfalla eða þann tíma sem svarar til einnar viku vinnuskyldu starfsmanna greiðast auk mánaðarlauna, fastar greiðslur svo sem fyrir yfirvinnu. Eftir fyrstu viku veikinda- og slysaforfalla skal einnig greiða meðaltal þeirra yfirvnnustunda sem hann fékk greiddar síðustu 12 mánaðarleg uppgjörstímabil yfirvinnu eða síðustu 12 heilu almanaksmánuðina.

Veikindi barna:

Veikindi barna yngri en 13 ára eru 12 vinnudagar (96 vinnuskyldustundir) á hverju almanaksári.

Veikndi eða slys á vinnustað/á leið til vinnu:

Ef um er að ræða veikindi eftir slys í vinnu eða slys á leið til vinnu, eru laun óbreytt frá upphafi veikinda.

Veikindi í orlofi:

Veikist starfsmaður í orlofi, telst sá tími sem veikindum nemur ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann geti ekki notið orlofs. Tilkynna skal yfirmanni án tafar með sannanlegum hætti ef um veikindi eða slys í orlofi er að ræða.

Starfshæfnisvottorð:

Starfshæfnisvottorði þarf að framvísa ef veikindi vara lengur en 1 mánuð.

Sjá nánar um veikindarétt á vef BHM.

Skert starf („hlutaveikindi“) byggist á heimildarákvæði í kjarasamningi og getur því aðeins nýst starfsmanni ef forstöðumaður samþykkir það. Aðstæður á vinnustað geta þó verið þannig að slíku verði ekki við komið.

Heimildin er hugsuð til þess að starfsmaður sem verið hefur frá starfi vegna veikinda eða slyss fái aðlögunartíma þegar hann kemur aftur til starfa. Þannig geti hann tekið upp fullt starf að nýju í áföngum, t.d. með því að vinna hálft starf fyrstu vikurnar. Heimildin skal aðeins notuð sem hluti af endurhæfingu og alltaf tímabundið.

Hafa þarf í huga við veitingu orlofs að starfsmaður getur ekki talist að hálfu veikur og að hálfu frískur í orlofi. Fari starfsmaður sem verið hefur í „hluta­veikindum“ í frí telst það að fullu til orlofstöku nema læknir votti að starfs­maður geti ekki notið orlofs en þá telst fríið að fullu til veikinda.

Ákvæðið á ekki við ef starfsmaður er orðinn varanlega ófær um að gegna að fullu því starfs­hlutfalli er hann var ráðinn til, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. stml. Slíkt hefur í för með sér lausn samkvæmt kafla 12.4 í kjarasamningi.