Akademískir starfsmenn
Samkvæmt reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, gr. 28, teljast akademískir starfsmenn háskólans, prófessorar, dósentar, lektorar, vísindamenn, fræðimenn og sérfræðingar.
Rektor veitir ótímabundin akademísk störf við háskólann og framgang akademískra starfsmanna skv. 31. gr. reglnanna. Forseti fræðasviðs, í umboði rektors, ræður þá akademísku starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið við fræðasvið og stofnanir sem heyra undir fræðasvið, auk aðjúnkta og stundakennara.
Í samræmi við lög og reglur Háskóla Íslands ber að auglýsa störf aðjúnkta í Félagi háskólakennara, sem eru í 50% starfi og meira. Forsetar fræðasviða ráða aðjúnkta. Reglur þessar ná til þeirra aðjúnkta sem hafa kennlsu við Háskóla Íslands að aðalstafi og ráðnir eru til a.m.k. eins misseris á föstum launum og eru ekki á sama tíma í starfi annars staðar sem er meira en hálft starf.
Heimilt er að ráða tímabundið án auglýsingar til starfa kennara með starfsheitið aðjunkt II í allt að 49% starf, þar sem allt að 90% vinnuskyldu er kennsla og prófvinna.