Trúnaðarmenn - réttarstaða og hlutverk

Lögfesting trúnaðarmannakerfisins
Trúnaðarmannakerfi var fyrst lögfest á almennum markaði á Íslandi með lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Opinberir starfsmenn innan BSRB fengu trúnaðarmannakerfi með lögum nr. 29/1976 um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hins vegar fengu opinberir starfsmenn innan Bandalags háskólamanna fyrst trúnaðarmannakerfi með lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Kosning trúnaðarmanna
Trúnaðarmenn teljast þeir skv. lögum (nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og lögum nr. 94/1986) sem uppfylla skilyrði þessara laga að kallast trúnaðarmenn. Í 28. gr. l. nr. 94/1986 er fjallað um þetta og þar segir að kjósa megi trúnaðarmann á hverri vinnustöð þar sem starfa a.m.k. fimm og þar sem starfa 50 eða fleiri má kjósa tvo. Trúnaðarmaður telst ekki fá réttarstöðu og lögbundna vernd trúnaðarmanns nema að kosning hans hafi verið tilkynnt vinnuveitanda skriflega og sannanlega:

 • Á hverri vinnustöð þar sem a.m.k. fimm menn vinna er starfsmönnum heimilt að kjósa úr sínum hópi einn trúnaðarmann. Á vinnustöð þar sem fimmtíu menn eða fleiri vinna má kjósa tvo trúnaðarmenn. Trúnaðarmenn skal kjósa til tveggja ára í senn. Val trúnaðarmanna skal tilkynna vinnuveitanda og stjórn stéttarfélags þegar í stað.
 • Heimilt er að kjósa trúnaðarmenn fyrir félagssvæði eða hluta þess vegna starfsmanna á vinnustöðvum sem ekki uppfylla skilyrði um lágmarksfjölda.
 • Heimilt er einstökum félögum að semja um aðra skipan á vali trúnaðarmanna en að framan greinir.

Samkvæmt Samkomulagi um trúnaðarmenn milli fjármálaráðherra og BHM(R) fyrir hönd aðildarfélaganna eru samningamenn stéttarfélaga trúnaðarmenn í merkingu laga nr. 94/1986. Fulltrúar stéttarfélags í samstarfsnefnd teljast samningamenn og þar með trúnaðarmenn félagsins. Í bókunum með kjarasamningum 1997 um nýtt launakerfi var áréttað sérstaklega að fulltrúar félaganna í aðlögunar-, úrskurðar- og samstarfsnefndum teldust trúnaðarmenn og nytu sömu réttinda og þeir.

Réttindi og vernd trúnaðarmanna
Trúnaðarmenn njóta ákveðinna réttinda og ákveðinnar verndar skv. 28.-30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

 1. Trúnaðarmaður nýtur sérstakrar verndar skv. lögum:

  a. Hann skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til trúnaðarstarfa (2. mgr. 30. gr. l. nr. 94/1986).
  b. Ekki má lækka trúnaðarmann í launum á meðan hann gegnir trúnaðarstarfi sínu (3. mgr. 30. gr. l. nr. 94/1986).
  c. Hann situr að öðru jöfnu fyrir um að halda vinnunni ef hann er ráðinn með ótímabundinni ráðningu (4. mgr. 30. gr. l. nr. 94/1986).

 2. Trúnaðarmaður hefur rétt til þess að rækja skyldur sínar á vinnutíma (sbr. 4. mgr. 29. gr.). Þetta felur í sér að trúnaðarmaður á að geta undirbúið sig og sótt fundi á greiddum vinnutíma.
 1. Trúnaðarmaður á rétt á því að hafa aðstöðu á vinnustað til að rækja skyldur og hlutverk sitt (sbr. 5. mgr. 29. gr.). Þetta felur í sér að hann á að geta fundað á vinnustað með starfsmönnum vegna erinda þeirra eða til að bera mál undir þá í kaffitímum eða við lok vinnudags. Hann á einnig rétt á nauðsynlegri skrifstofuaðstöðu og aðgangi að síma o.þ.h. ef hlutverk hans gerir kröfu til slíks.
 1. Trúnaðarmaður á rétt á því að sækja námskeið og fundi á vegum stéttarfélagsins í allt að eina viku á ári (sbr. 3. gr. Samkomulags um trúnaðarmenn).

Skilyrði trúnaðarmannaverndar
Trúnaðarmenn á vinnustað njóta því aðeins ákvæða laganna um réttindi og trúnaðarmannavernd að þeir hafi verið tilkynntir hlutaðeigandi atvinnurekanda skriflega og með sannanlegum hætti. Ef um er að ræða fulltrúa í miðlægum samstarfsnefndum ber að tilkynna fulltrúa félagsins til þess vinnuveitanda sem gerir kjarasamninginn, t.d. fjármálaráðherra, en skynsamlegt er að tilkynna það einnig skriflega til forstjóra hlutaðeigandi stofnunar. Ef um er að ræða fulltrúa félags í samstarfsnefnd á stofnun ætti að vera nægjanlegt að tilkynna það skriflega til forstjóra stofnunar.

Hlutverk trúnaðarmanna
Helstu hlutverk trúnaðarmanns eru þessi:

 • Hafa eftirlit með því að atvinnurekandi fari eftir ákvæðum kjarasamnings og laga um starfskjör og réttindi starfsmanna og grípa til nauðsynlegra aðgerða ef þörf er á.
 • Meta hvaða ákvæði kjarasamninga og reglna er æskilegt að breyta til að bæta kjör eða draga úr vanda við framkvæmd og gera stéttarfélaginu grein fyrir því, m.a. þegar staðið er að undirbúningi undir kröfugerð vegna kjarasamninga.
 • Taka við umkvörtunum starfsmanna og vera talsmaður þeirra gagnvart atvinnurekanda. Trúnaðarmaður skal gefa starfsmanni og stéttarfélagi skýrslu um hvað atvinnurekandi er sakaður um að hafa brotið af sér, hver séu viðbrögðin og hver séu málalok. Aðstoða félagið áfram við málið sé þess þörf.
 • Vera fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustað, sjá um að koma boðum frá félagsmönnum til félagsins og frá félaginu til félagsmanna. Kynna félagsmönnum stefnu stéttarfélagsins og verkefni hverju sinni.
 • Taka á móti nýjum starfsmönnum, kynna þeim starfskjör og réttindi og kynna þeim stéttarfélagið og starfsemi þess.
 • Fylgjast með framkvæmd atvinnurekanda út frá jafnréttislögum.

Sjá einnig: Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is