Samkomulag um trúnaðarmenn

Samkomulag um trúnaðarmenn

Samkomulag um trúnaðarmenn hjá ríki, Reykjavíkurborg og ýmissa sjálfseignastofnana

1. grein

Samkvæmt þessu samkomulagi teljast þeir trúnaðarmenn í skilningi laga nr. 94/1986 sem eru:
a) kjörnir trúnaðarmenn skv. 28 grein þeirra laga sbr. einnig 2. gr. þessa samkomulags,
b) kjörnir trúnaðarmenn skv. 2. grein þessa samkomulags
c) kjörnir stjórnarmenn stéttarfélaga og heildarsamtaka þeirra,
d) kjörnir samninganefndarmenn stéttarfélaganna.

2. grein

Trúnaðarmenn má kjósa fyrir svæði, ef vinnustaðir uppfylla ekki fjöldaskilyrði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/1986. Trúnaðarmann má kjósa fyrir hverja þrjá vinnustaði þar sem áðurnefnd fjöldaskilyrði eru ekki uppfyllt.

Á þeim vinnustöðum þar sem starfsmenn vinna samkvæmt mismunandi vinnutímakerfum skal þrátt fyrir ákvæði 28. greinar laga nr. 94/1986 kjósa einn trúnaðarmann hið minnsta fyrir hvert vinnutímakerfi.

3. grein

Trúnaðarmönnum skal heimilt að sækja þing, fundi, ráðstefnur og námskeið á vegum stéttarfélagsins í allt að eina viku einu sinni á ári án skerðingar á reglubundnum launum. Þeir sem kjörnir eru í samninganefnd fá leyfi til að sinna því verkefni án skerðingar á reglubundnum launum. Í öllum framangreindum tilvikum skal tilkynna yfirmanni stofnunar með eðlilegum fyrirvara um slíkar fjarvistir.

4. grein

Fjármálaráðherra mun beita sér fyrir því að trúnaðarmenn og stéttarfélög geti haldið vinnustaðafundi enda séu slíkir fundir ekki til verulegs ónæðis fyrir starfsemi eða þjónustu viðkomandi stofnunar.

Fjármálaráðherra mun beita sér fyrir því að starfsmenn geti sótt námskeið um félagsleg málefni sem haldin eru á vegum viðkomandi stéttarfélags eða heildarsamtakanna og fái til þess leyfi frá störfum án skerðingar á reglubundnum launum.

5. grein

Óski annar hvor aðila eftir breytingum á samkomulagi þessu, skal hann kynna gagnaðila þær skriflega. Takist ekki samkomulag innan þriggja mánaða, getur hvor aðila um sig innan einnar viku sagt upp samkomulagi þessu með eins mánaðar fyrirvara.

Reykjavík 9. janúar 1989

F.h. fjármálaráðherra F.h. BHMR

[Indriði H. Þorláksson]      [Páll Halldórsson]

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is