Reglur kjaradeilusjóðs Félags háskólakennara
Samþykktar á félagsfundi 20. nóvember 1996.
_____________________
1. gr.
Sjóðurinn heitir Kjaradeilusjóður Félags háskólakennara. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Tilgangur sjóðsins er að annast vörslu hluta félagsgjalda félagsmanna FH sem endurgreiða má þegar þeir geta ekki stundað vinnu vegna kjaradeilna sem FH er aðili að sbr. 7. gr. laga FH.
3. gr.
Aðild að sjóðnum eiga félagsmenn FH sem félagið semur fyrir. Hluti félagsgjalda varðveitist í sjóðnum og skal ákveða á aðalfundi hve mikið.
4. gr.
Stjórn Félags háskólakennara fer með stjórn kjaradeilusjóð.
5. gr.
Hlutverk sjóðsstjórnar er að annast vörslu og ávöxtun sjóðsins. Hún tekur einnig ákvarðanir um greiðslur úr honum. Fjárhagur sjóðsins skal aðskilinn frá félagssjóði FH.
6. gr.
Kjörnir endurskoðendur FH skulu jafnframt vera endurskoðendur sjóðsins.
7. gr.
Rétt til endurgreiðslu á félagsgjöldum, láns eða styrks á sérhver aðili að sjóðnum sem ekki getur stundað vinnu sína vegna kjaradeilu FH, enda sé hann skuldlaus við félagið. Þegar vinnudeila er fyrirsjáanleg skal stjórn sjóðsins gera áætlun um greiðslur úr sjóðnum og útbúa reglur um greiðslur til félagsmanna. Ekki er heimilt að endurgreiða félagsgjöld lengra en 10 ár aftur í tímann sbr. 7. gr. laga FH.
Ennfremur er heimilt að greiða úr sjóðnum til að styrkja rekstrargrundvöll Starfsþróunarsjóðs Félags háskólakennara (SFH) skv. bókun 4 í kjarasamningi félagsins annars vegar og fjármálaráðherra hins vegar, dags. 16. nóvember 2015.
8. gr.
Heimilt er að greiða úr sjóðnum kostnað vegna undirbúnings og framkvæmdar verkfalla, þó ekki venjulegan samningskostnað né þóknun fyrir verkfallsvörslu. Einnig er heimilt að styrkja önnur stéttarfélög sem eiga í kjaradeilum eða styrkja aðrar aðgerðir sem tengjast kjaradeilum.
9. gr.
Fundargerðir sjóðsstjórnar skal skrá sérstaklega. Auk þess skal stjórnin skrá hverjir fá endurgreidd félagsgjöld og ennfremur óreglubundin framlög til sjóðsins ef einhver eru. Ávalt skal rökstyðja skriflega ef erindi er hafnað.
10. gr.
Verði sjóðurinn af einhverjum ástæðum að hætta störfum skal ákvörðun um það og ráðstöfun eigna sjóðsins tekin á aðalfundi.
11. gr.
Reglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og gilda sömu reglur um þær og breytingar á lögum félagsins.
_____________________
8. grein reglnanna var breytt á aðalfundi 16. maí 2002
7. grein reglnanna var breytt á aðalfundi 19. maí 2016