Starfsmenntunarsjóður BHM

Starfsmenntunarsjóður BHM styrkir sjóðfélaga vegna kostnaðar sem fellur til við sí- og endurmenntun sem tengist verkefni, starfi eða fagsviði umsækjenda. Markmið Starfsmenntunarsjóðs BHM er að tryggja fjárhagslegan grundvöll símenntunar og endurhæfingarnáms féalgsmanna.  Flestir félagsmenn hafa rétt til að sækja um í starfsmenntunarsjóð BHM eða STRIB eins og sjóðurinn er oft kallaður. 

Hverjir eiga rétt?

Rétt í Starfsmenntunarsjóði BHM eiga þeir sem greitt hefur verið fyrir starfsmenntunarsjóðsframlag í samfellda 6 mánuði. Inngreiðslur í sjóðinn sem miða við 660 krónur eða minna veita rétt til hálfs styrks.

Rof á aðild sem rekja má til eftirtalda tilvika skerðir ekki rétt sjóðsfélaga til úthlutunar:

  • Fæðingarorlof: Aðildarrof í fæðingarorlofi skerðir ekki möguleika sjóðsfélaga á úthlutun úr sjóðnum enda sé stéttarfélagsgjald greitt á orlofstímabili.
  • Atvinnuleysi: Við atvinnumissi halda sjóðsfélagar réttindum sínum í sjóðnum í allt að 12 mánuði. Aðildarfélögum er heimilt að framlengja þetta tímabil upp í 3 ár gegn því að greiða 0,22% iðgjald til sjóðsins af atvinnuleysisbótum frá upphafi atvinnuleysis félagsmanna sinna. 
  • Launalaust leyfi: Sjóðsfélagar halda réttindum sínum fyrstu 6 mánuði í launalausu leyfi.
  • Veikindi: Sjóðsfélagar halda réttindum sínum í sjóðnum fyrir það tímabil sem þeir fá greidda sjúkradagpeninga frá Sjúkrasjóði BHM eða Styrktarsjóði BHM. Eins er farið með mál sjóðfélaga sem þiggja endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun og þeirra sem atvinnulausir eru.
  • Lok ráðiningarsambands:  Sjóðsaðild telst lokið við lok ráðningarsambands. 

Sjóðstjórn metur hvort unnt sé að brúa aðildarrof með hliðsjón af eldri sjóðsaðild. Rof getur aldrei orðið lengra en 6 mánuðir.

Umsóknarferli:

Umsóknum í Starfsmenntunarsjóð skal skilað rafrænt á Mínum síðum. Skila þarf umsóknum fyrir fyrsta dag hvers mánaðar. Tilskilin gögn þarf að hengja við umsókn í síðasta lagi 20. dag sama mánaðar. Greiðslur úr sjóðnum fara að jafnaði fram 25. dag hvers mánaðar. 

Meðferð umsókna

Starfsmenn sjóðsins afgreiða umsóknir samkvæmt úthlutunarreglum. Allir umsækjendur fá svarpóst þar sem fram kemur hvort umsóknin hefur verið samþykkt eða ekki og hvaða gögnum þurfi að skila til þess að unnt sé að greiða styrkinn út.

Sætti sjóðsfélagi sig ekki við ákvörðun starfsmanna sjóðsins á hann ávallt rétt á að vísa máli sínu til stjórnar Starfsmenntunarsjóðs BHM. Verkefni sem vafi leikur á að falli að reglum sjóðsins eru lögð fyrir stjórn Starfsmenntunarsjóðs. Stjórnin kemur saman níu sinnum á ári og tekur til umfjöllunar fyrirliggjandi umsóknir og önnur mál. Ekki eru stjórnarfundir í febrúar, júlí né desember. Að jafnaði kemur stjórn saman annan þriðjudag í mánuði.

Fylgigögn

Fylgigögnum er skilað til sjóðsins í gegnum Mínar síður. Síðasti skiladagur er 20. hvers mánaðar. Upphæðir styrkja miðast við framlagða reikninga og þá er gerð krafa um að þeir séu sannanlega greiddir. Einungis eru veittir styrkir vegna reikninga sem eru í nafni umsækjanda. Svokallaðir e-miðar frá flugfélögum og staðfestingar á bókunum teljast ekki fullnægjandi staðfesting á greiðslu.

Sé sótt um styrk vegna skipulagðra kynnisferða þarf auk reikninga/greiðslukvittanna að skila inn áritaðu bréf frá yfirmanni eða umsjónarmanni ferðarinnar. Í bréfinu skal ferðinni lýst og tilgangur hennar útskýrður. Einnig skal fylgja þátttakendalisti ásamt ítarlegri dagskrá á faglegum hluta ferðarinnar sem tiltekur þá staði sem heimsóttir eru, hvert efni kynningar er á hverjum stað og tímasetningar..

Greiðsla styrkja

Starfsmenntunarsjóður BHM greiðir út styrki 25. hvers mánaðar eða næsta virka dag þar á eftir. Til að eiga rétt á útgreiðslu styrks þarf sjóðsfélagi að hafa skilað inn umsókn fyrir fyrsta dag sama mánaðar og tilskildum gögnum fyrir 20. dag mánaðarins. Starfsmenn sjóðsins áskilja sér rétt til sveigjanleika í greiðslu styrkja. Sjóðsfélagar bera sjálfir ábyrgð á því að skila inn tilskildum gögnum.

Ef styrkloforðs er ekki vitjað eða tilskilin gögn berast ekki sjóðnum innan níu mánaða frá dagsetningu á tilkynningu um styrkveitingu fellur loforðið niður.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is